Við skuldum Bretum ekki pence!

  Þessi grein mín birtist fyrst á Vísir í morgun (8. apr. 2011)


Við skuldum Bretum ekki pence!

Daníel Sigurðsson skrifar:

Í þorskastríðunum barðist íslenska þjóðin af mikilli þrautseigju gegn Bretum til verndar ofveiddum fiskimiðum landsins, sem voru að ganga til þurrðar og lífsafkoma þjóðarinnar í húfi.
Þó svo að „alþjóðasamfélagið" hafi verið Íslandi mótdrægt í byrjun í öll þrjú skiptin þá vakti frammistaða smáríkisins aðdáun umheimsins þegar niðurlægjandi ósigur Breta var staðreynd.
Það sama mun verða uppá teningnum ef við stöndum fast á rétti okkar nú og látum ekki þröngva uppá okkur tilefnislausum og ólögvörðum kröfum að andvirði margra ára útflutningstekna þjóðarinnar af fiskimiðunum.
Við höfum verið að ná vopnum okkar og vinna áróðursstríðið á erlendum vettvangi eins og þá.
Skoðanakannanir sýna að samstöðumáttur þjóðarinnar gegn valdníðslunni fer vaxandi. Margur reynir þó að tala kjarkinn úr þjóðinni í von um að fölsk sektarkennd og hræðsla taki völdin í kjörklefanum.
Allir vita að breskum og hollenskum innistæðueigendum hefur verið bættur skaðinn fyrir löngu. Því vakti það hneykslun að fréttakona útvarps hér á dögunum, lét þess getið að með samþykki Icesave III, sæju líknarfélög í Bretlandi loks fram á að fá innistæður sínar greiddar til baka.
JÁ-kórinn hefur nú áttað sig á því að landinn er orðinn of upplýstur um Icesave til að slagorðin „lagaleg skylda" og „siðferðileg skylda" virki sem skyldi. Hann hefur því m.a. gripið til þess ráðs að fá fyrrum efnahagsráðgjafa hrunstjórnarinnar, til að leika trúð fyrir framan alþjóð í þágu málstaðarins, líklega með frækilegan árangur núverandi borgarstjóra í síðustu kosningum í huga.
Ég var þeirrar skemmtunar aðnjótandi að heyra hnitmiðaða en stutta jómfrúarræðu þessa „JÁ-trúðs" í Lögbergi á dögunum sem hljóðaði svo:

„Ég er það praktískur, það pragmatískur, að ég vill [sic] kyngja ælunni og halda áfram, kyngja ælunni og halda áfram...vegna þess að ég trúi því að með því að gera það að þá getum við búið okkur meiri velferð hérna á Íslandi, (heldur) en ef við stöndum stolt, ef við stöndum stolt eins og Bjartur í Sumarhúsum. Það er það sem ég trúi."

Þetta var mjög áhrifaríkt og mér er nær að halda að Laxness hafi snúið sér við í gröfinni þegar þessi orð féllu.
Síðast heyrði ég „trúðinn" búktala í gegnum ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara, í leik með stórar tölur ef matsfyrirtækin myndu lækka lánshæfiseinkunn ríkisins niður í ruslflokk. Þessi fyrrum bankastjóri banka sem hann keyrði í þrot, er vissulega alls ekki einn um að hafa afrekað slíkt í kreppunni. En af því að svona gjörningur getur tæplega talist meðmæli fyrir atvinnuspámann í bransanum, þó hann sé bæði gáfaður og oft skemmtilegur, þá finnst manni hann vera að grínast þegar hann tekur upp kristalskúluna þessa dagana.
Þessi fyrrum efnahagsráðgjafi á bak við sirkusgrímuna veit náttúrlega að reynslan er sagna best. Það vissi forseti lýðveldisins líka þegar hann minnti svo rækilega á það í síðustu ræðu sinni til þjóðarinnar að hrakspárnar í kringum Icesave I og II hefðu alls ekki ræst, ekki ein einasta!
Man þjóðin eftir því þegar Gylfi Magnússon var að „hóta" Kúbu norðursins og aðrir ráðherrar í svipuðum dúr?
Nei, lánshæfiseinkunn ríkisins lækkaði ekki heldur þvert á móti hækkaði eftir að Icesve II var kolfellt og það þótt matsfyrirtæki hafi verið með hótanir um annað, eins og nú vegna þrýstings frá Bretum og jafnvel óbeint frá ríkisstjórn Íslands.
Burt með þessar kristalskúlur, staðreyndirnar tala! Nei við Icesave III mun vitaskuld hafa áhrif til hækkunar lánshæfiseinkunnar en ekki öfugt, enda afar langsótt að ætla að lánshæfiseinkunn lækki við það að ríkisábyrgð uppá um 700 milljarða ólögvarða kröfu verði hafnað á laugardaginn!
Nei mun vekja aðdáun meirihluta erlendra þjóða.
Ég hef búið og starfað í Þýskalandi fleiri ár, síðast nokkra mánuði í fyrra. Ég fullyrði að NEI mun vekja mikla aðdáun Þjóðverja nema kannski sumra býrókratanna.
Landsbankinn fékk ekki starfsleyfi í Bretlandi og Hollandi fyrr en hann hafði keypt rándýrar innistæðutrygging þar í landi. Íslendingar skulda Bretum ekkert!
Við brauðfæddum þá með fiskmeti í heila heimsstyrjöld sem tók sinn toll á hafinu milli Íslands og Bretlands. Þeir voru í stríði ekki við, samt misstu Íslendingar hlutfallslega nær jafn marga menn og þeir.
Við fall bandaríska risabankans Lehman Brothers, um miðjan sept. 2008, sem setti heimskreppuna í 5. gírinn, hefur það varla hvarflað að bresku ríkisstjórninni að dirfast að beita hryðjuverkalögum á útibú hans í Bretlandi þrátt fyrir gífurlegt útstreymi breskra punda úr landi. Nei, málið var að bankinn var í eigu stóra bróður! Gordon Brown ákvað hins vegar nokkru síðar að sýna heimsbyggðinni, en þó ekki síst kjósendum sínum, mátt sinn og megin með því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi, minnsta bróðurnum í NATO, sem ollu okkur gífurlegum skaða.
Þetta voru þakkirnar fyrir það að með íslensku neyðarlögunum færðust Icesave-innistæðurnar úr almennum kröfum í forgangskröfur á silfurfati, en ella stæðu Bretar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu upp í tapaðar innistæðurnar!
Þökkum fyrir samskiptin með því að segja NEI.

Fyrst birt: 08. apr. 2011 07:00


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Daníel Sigurðsson

Höfundur

Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson
Véltæknifræðingur

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 734

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband