Skrökvað með tölfræði!

 

Skrökvað með tölfræði!

 Eftir Daníel Sigurðsson
 
Auglýsingar Já-sinna misþyrma hreinlega brjóstvitinu eins og heilsíðu-auglýsingin með stöplaritinu sem gefur að líta í blöðunum. Hún er í samræmi við inntak frægrar bókar:  How to Lie with Statistics (Hvernig á að ljúga með tölfræði) eftir Darrell Huff. Því miður hafa margir nýtt sér fræðin til að svindla og svo fengið tugthúsvist að launum.
 
Í þessari makalausu auglýsingu Já-hópsins er "reiknitrúðurinn" að bera saman kostnað og öllu snúið á hvolf í samanburðinum. Nægir að benda á yfirskriftina:
 
Kostnaður við JÁ og NEI í milljörðum króna. Athugið að möguleikinn „EKKI BORGA NEITT" er ekki til nema við segjum JÁ.   En hér á að standa:.... nema við segjum NEI.
 
Sannleikurinn er sá að vextirnir 32 milljarðar sem borga þarf n.k. mánudag, ef svo slysalega fer að samningurinn verður samþykktur, eru að eilífu glataðir Íslendingum því vextirnir lenda í almennum kröfum en ekki forgangskröfum úr þrotabúinu. Þannig að "EKKI BORGA NEITT" er ekki til ef við segjum JÁ.
 
Á hinn bóginn ef samningurinn verður felldur og Bretar og Hollendingar fara ekki í dómsmál þá þurfa Íslendingar ekki að borga neitt! Það gerist því einvörðungu ef við segjum NEI.
 
En til þess að geta teygt og togað stöplaritin að geðþótta gefur "reiknitrúðurinn" sér að lánshæfiseinkunn ríkisins fari niður ef NEI verður niðurstaðan. Þar með lokar hann augunum fyrir því að Lánshæfiseinkunnin fór í þveröfuga átt eftir að þjóðin hafnaði Icesave II, sem sé upp en ekki niður, auk þess sem tryggingaálagið fór í rétta átt líka.

En það var auðvitað sama sagan þá eins og nú að matsfyrirtæki var búið að hóta öðru vegna þrýstings frá Bretum bak við tjöldin, sem koðnaði svo niður eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og það mun einnig gerast nú ef við segjum NEI!

Það er mýta, sem margur heldur fram, að Íslendingar hafi skilið illa við breska og hollenska Icesave-innistæðueigendur með íslensku neyðarlögunum. Það er öðru nær, því með þeim færðust Icesave-innistæðurnar úr allmennum kröfum í forgangskröfur, en ella stæðu Bretar & Hollendingar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu uppí tapaðar innistæðurnar. Það eru bara B&H sem hagnast á þessu ákvæði neyðarlaganna en Íslendingar ekki. Bretar setja svo á okkur hryðjuverkalög í þakklætisskyni!
 
Það er þrálátt fleipur, sem margur JÁ-sinninn heldur á lofti að bresku og hollensku tryggingasjóðirnir virki bara sem einskonar "top-up" tryggingasjóðir gagnvart Icesave. Landsbankinn fékk ekki starfsleyfi fyrir (net-)útibúi sínu Icesave í Bretlandi og Hollandi fyrr en hann hafði keypt dýrar tryggingar í þessum löndum. Annars vegar FSCS I Bretlandi og DNB í Holland. Þar með var Landsbankinn kominn með tvöfaldar innistæðutryggingar vegna Icesave. FSCS og DNB báru fulla ábyrgð á öllum tryggingum vegna Icesave, þar á meðal lágmarkstryggingu ESB og TIF. FSCS og DNB upp að trygginga-mörkum GBP 50.000 í Bretlandi og EUR 100.000 í Hollandi. Þetta bar þeim að greiða samkvæmt tryggingaskilmálum þessara sjóða. Ríkissjóður Bretlands greiddi svo  innistæður í Bretlandi sem voru umfram tryggingamark þar í landi. Í Hollandi mun enginn hafa átt yfir trygginga-markinu EUR 100.000.
 
Hryðjuverkalög Breta ollu Íslendingum gífurlegum skaða.
Bretar eru stórskuldugir við okkur ekki öfugt! 
Segjum NEI við Icesave!


 


Við skuldum Bretum ekki pence!

  Þessi grein mín birtist fyrst á Vísir í morgun (8. apr. 2011)


Við skuldum Bretum ekki pence!

Daníel Sigurðsson skrifar:

Í þorskastríðunum barðist íslenska þjóðin af mikilli þrautseigju gegn Bretum til verndar ofveiddum fiskimiðum landsins, sem voru að ganga til þurrðar og lífsafkoma þjóðarinnar í húfi.
Þó svo að „alþjóðasamfélagið" hafi verið Íslandi mótdrægt í byrjun í öll þrjú skiptin þá vakti frammistaða smáríkisins aðdáun umheimsins þegar niðurlægjandi ósigur Breta var staðreynd.
Það sama mun verða uppá teningnum ef við stöndum fast á rétti okkar nú og látum ekki þröngva uppá okkur tilefnislausum og ólögvörðum kröfum að andvirði margra ára útflutningstekna þjóðarinnar af fiskimiðunum.
Við höfum verið að ná vopnum okkar og vinna áróðursstríðið á erlendum vettvangi eins og þá.
Skoðanakannanir sýna að samstöðumáttur þjóðarinnar gegn valdníðslunni fer vaxandi. Margur reynir þó að tala kjarkinn úr þjóðinni í von um að fölsk sektarkennd og hræðsla taki völdin í kjörklefanum.
Allir vita að breskum og hollenskum innistæðueigendum hefur verið bættur skaðinn fyrir löngu. Því vakti það hneykslun að fréttakona útvarps hér á dögunum, lét þess getið að með samþykki Icesave III, sæju líknarfélög í Bretlandi loks fram á að fá innistæður sínar greiddar til baka.
JÁ-kórinn hefur nú áttað sig á því að landinn er orðinn of upplýstur um Icesave til að slagorðin „lagaleg skylda" og „siðferðileg skylda" virki sem skyldi. Hann hefur því m.a. gripið til þess ráðs að fá fyrrum efnahagsráðgjafa hrunstjórnarinnar, til að leika trúð fyrir framan alþjóð í þágu málstaðarins, líklega með frækilegan árangur núverandi borgarstjóra í síðustu kosningum í huga.
Ég var þeirrar skemmtunar aðnjótandi að heyra hnitmiðaða en stutta jómfrúarræðu þessa „JÁ-trúðs" í Lögbergi á dögunum sem hljóðaði svo:

„Ég er það praktískur, það pragmatískur, að ég vill [sic] kyngja ælunni og halda áfram, kyngja ælunni og halda áfram...vegna þess að ég trúi því að með því að gera það að þá getum við búið okkur meiri velferð hérna á Íslandi, (heldur) en ef við stöndum stolt, ef við stöndum stolt eins og Bjartur í Sumarhúsum. Það er það sem ég trúi."

Þetta var mjög áhrifaríkt og mér er nær að halda að Laxness hafi snúið sér við í gröfinni þegar þessi orð féllu.
Síðast heyrði ég „trúðinn" búktala í gegnum ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara, í leik með stórar tölur ef matsfyrirtækin myndu lækka lánshæfiseinkunn ríkisins niður í ruslflokk. Þessi fyrrum bankastjóri banka sem hann keyrði í þrot, er vissulega alls ekki einn um að hafa afrekað slíkt í kreppunni. En af því að svona gjörningur getur tæplega talist meðmæli fyrir atvinnuspámann í bransanum, þó hann sé bæði gáfaður og oft skemmtilegur, þá finnst manni hann vera að grínast þegar hann tekur upp kristalskúluna þessa dagana.
Þessi fyrrum efnahagsráðgjafi á bak við sirkusgrímuna veit náttúrlega að reynslan er sagna best. Það vissi forseti lýðveldisins líka þegar hann minnti svo rækilega á það í síðustu ræðu sinni til þjóðarinnar að hrakspárnar í kringum Icesave I og II hefðu alls ekki ræst, ekki ein einasta!
Man þjóðin eftir því þegar Gylfi Magnússon var að „hóta" Kúbu norðursins og aðrir ráðherrar í svipuðum dúr?
Nei, lánshæfiseinkunn ríkisins lækkaði ekki heldur þvert á móti hækkaði eftir að Icesve II var kolfellt og það þótt matsfyrirtæki hafi verið með hótanir um annað, eins og nú vegna þrýstings frá Bretum og jafnvel óbeint frá ríkisstjórn Íslands.
Burt með þessar kristalskúlur, staðreyndirnar tala! Nei við Icesave III mun vitaskuld hafa áhrif til hækkunar lánshæfiseinkunnar en ekki öfugt, enda afar langsótt að ætla að lánshæfiseinkunn lækki við það að ríkisábyrgð uppá um 700 milljarða ólögvarða kröfu verði hafnað á laugardaginn!
Nei mun vekja aðdáun meirihluta erlendra þjóða.
Ég hef búið og starfað í Þýskalandi fleiri ár, síðast nokkra mánuði í fyrra. Ég fullyrði að NEI mun vekja mikla aðdáun Þjóðverja nema kannski sumra býrókratanna.
Landsbankinn fékk ekki starfsleyfi í Bretlandi og Hollandi fyrr en hann hafði keypt rándýrar innistæðutrygging þar í landi. Íslendingar skulda Bretum ekkert!
Við brauðfæddum þá með fiskmeti í heila heimsstyrjöld sem tók sinn toll á hafinu milli Íslands og Bretlands. Þeir voru í stríði ekki við, samt misstu Íslendingar hlutfallslega nær jafn marga menn og þeir.
Við fall bandaríska risabankans Lehman Brothers, um miðjan sept. 2008, sem setti heimskreppuna í 5. gírinn, hefur það varla hvarflað að bresku ríkisstjórninni að dirfast að beita hryðjuverkalögum á útibú hans í Bretlandi þrátt fyrir gífurlegt útstreymi breskra punda úr landi. Nei, málið var að bankinn var í eigu stóra bróður! Gordon Brown ákvað hins vegar nokkru síðar að sýna heimsbyggðinni, en þó ekki síst kjósendum sínum, mátt sinn og megin með því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi, minnsta bróðurnum í NATO, sem ollu okkur gífurlegum skaða.
Þetta voru þakkirnar fyrir það að með íslensku neyðarlögunum færðust Icesave-innistæðurnar úr almennum kröfum í forgangskröfur á silfurfati, en ella stæðu Bretar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu upp í tapaðar innistæðurnar!
Þökkum fyrir samskiptin með því að segja NEI.

Fyrst birt: 08. apr. 2011 07:00


Af hverju NEI við Icesave?

 

Grein þessi birtist fyrst i Morgunblaðinu  4. april 2011

 

Af hverju nei við Icesave?

 

Eftir Daníel Sigurðsson

 

>> Icesave-krafan slagar upp í kröfu Versalasamningsins miðað við höfðatölu. Því er ekki að undra að Icesave III eigi að gilda til ársins 2046!

 

Hávær kórinn í kringum Icesave I og II að okkur beri lagaleg skylda að greiða kröfur Breta og Hollendinga er nú þagnaður, en áfram klifað á meintri siðferðilegri skyldu okkar gagnvart »alþjóðasamfélaginu« (»félagi« sem nú er í »trúboði« yfir Líbíu með fulltingi klerkastjórnarinnar í Íran).

Eftir að íslenskir bankar tóku að dansa með á peningamörkuðum »félagsins«, sem eðalkratinn Jón Baldvin gerði kleift með EES-samningnum, lauk íslenska samkvæmisdansinum sviplega þegar risabankinn Lehman Brothers féll af sviðinu og tók Landsbankann og Kaupþing með sér með aðstoð terrorkratanna Browns og Darlings sem stóðu vaktina. Linntu þeir ekki látum fyrr en íslensk orðspor höfðu verið skrúbbuð burt af sviðinu.

Skyndilega birtist svo refurinn Darling í drottningarviðtali í Kastljósi á dögunum þar sem hann leit út eins og sauðmeinlaus enskur prestur hjá Sigrúnu Davíðsdóttur, sem þreifaði á dólgnum með silkihönskum í boði RÚV. Í þessu langa hjali var ekki tekist á um kjarna málsins: Efnahagsstríð Breta gegn Íslendingum með al-Qaeda-hryðjuverkalögunum, sem hafa valdið Íslendingum gífurlegum skaða. Þetta voru þakkirnar fyrir það að með íslensku neyðarlögunum færast Icesave-innistæðurnar úr almennum kröfum í forgangskröfur á silfurfati, en ella stæðu Bretar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu upp í tapaðar innistæðurnar!

Nei, sólin mun ekki hætta að koma upp þó svo að vér mörlandar neitum að kaupa okkur stundarfrið frá breskum alþjóðalögbrjótum.

Við hljótum að sópa öllum falsrökum fyrir borð eins og þeim að með Icesave III séu Íslendingar komnir með samning samsvarandi þeim sem bundu enda á þorskastríðin við Breta. Þessi sögutúlkun er blekking. Þetta voru uppgjafarsamningar sem gáfu þessu fyrrum stórveldi kost á að bjarga andlitinu, í niðurlægjandi ósigri fyrir Íslendingum í öll þrjú skiptin frá fjórum sjómílum upp í 200, sem fólst í því að leyfa þeim að dorga smávegis um tíma í lögsögu Íslands.

Icesave-samningurinn er með öfugum formerkjum. Hann tryggir B&H fullan sigur en ekki öfugt. Íslendingar fá sem »andlitsbjörgun« skárri vexti en með Hitchcock-hrollvekjunni Icesave II, en þó aðeins fram til ársins 2016. Minni hrollvekjan Icesave III felur í sér að íslenska ríkið ber fulla ábyrgð á kröfunni auk vaxta og lögsagan flyst frá Íslandi til B&H.

Ósigur Íslendinga blasir við ef Icesave III verður samþykktur. En það er ekki við samninganefnd Lees Buchheit að sakast, sem vann í umboði ríkisstjórnar sem leynt og ljóst var gengin til liðs við málstað andstæðingsins!

Þessi ólögvarði samningur dregur dám af hinum illræmda Versalasamningi sem þröngvað var upp á Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina og kostaði nýja.

Í fyrra voru Þjóðverjar að greiða Englandsbanka síðustu greiðsluna 91 ári eftir undirritun og jafngildir heildargreiðslan skipsförmum af gulli. Samt áttu Þjóðverjar síst meiri sök á stríðinu en sigurvegararnir.

Icesave-krafan slagar upp í hundruð milljarða ríkismarka kröfu Versalasamningsins miðað við höfðatölu. Því er ekki að undra að Icesave III gildi til ársins 2046!

Í þorskastríðunum hafði Ísland »alþjóðasamfélagið« á móti sér í byrjun í öll skiptin. En Ísland vann áróðursstríðin hægt og bítandi með stjórnmálamenn í brúnni sem hvikuðu hvergi enda með einarða þjóð að baki sér. Sigurinn er þó, að öllum ólöstuðum, fyrst og fremst að þakka lífshættulegum aðgerðum hugrakkra áhafna varðskipanna gegn bresku togurunum sem voru undir herskipavernd Breta sem reyndu að sigla niður varðskipin.

Í hildarleiknum um 50 og 200 sjómílurnar réðu hinar frægu togvíraklippur Íslendinga verulegu um úrslitin. Við þessu vopni áttu Bretar ekkert svar nema fallbyssur sem þeir gátu ekki réttlætt gagnvart umheiminum að beita, ekki frekar en Kaninn kjarnorkuvopnum í Víetnamstríðinu.

Frammistaða Íslendinga vakti aðdáun umheimsins en ekki öfugt. Það sama mun gerast nú ef við segjum nei.

Ég þekki umræðuna í Þýskalandi og Þjóðverja mjög vel, enda hef ég búið og starfað í Þýskalandi samtals meira en sjö ár, síðast fjóra mánuði í fyrra. Nei mun vekja mikla aðdáun Þjóðverja nema kannski sumra býrókratanna.

Íslendingar hafa hægt og bítandi verið að ná vopnum sínum og vinna áróðursstríðið.

Á erlendum vettvangi hefur forsetinn verið drjúgur. Hann mun varla liggja á liði sínu ef þjóðin segir nei. Nær hálf þjóðin ber mikið traust til hans nú skv. könnun en ekki nema um 17% til forsætisráðherra og er það ekki að undra.

Stóru bresku fjölmiðlarnir (F.T. og W.S.J.) standa nú með Íslendingum gegn Icesave!

Ef við reynumst mýs en ekki menn og segjum já munu peningamógúlarnir bresku ekki slaka á kverkatakinu fyrr en síðasta pundið er greitt.

Heimtur úr þrotabúinu eru óskrifað blað og gengi krónunnar þarf ekki að falla mikið til að risavaxinn höfuðstóll kröfunnar rjúki upp.

Ekki er að furða að B&H afþökkuðu eingreiðslutilboð upp á um 50 milljarða. Þeir vita sem er að eftir margfalt hærri upphæð er að slægjast.

Með NEI er gjaldeyrisáhættan úr sögunni og dómstólaleið breytir engu þar um.

Með NEI er allt að vinna en engu að tapa.

 

Höfundur er véltæknifræðingur


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skulda Íslendingar Bretum og Hollendingum eitthvað?

Það er mýta, sem margur heldur fram, að Íslendingar hafi skilið illa við breska og hollenska Icesave-innistæðueigendur með Neyðarlögunum. Það er öðru nær, því með þeim færðust Icesave-innistæðurnar úr allmennum kröfum í forgangskröfur, en ella stæðu Bretar & Hollendingar frammi fyrir því að fá nánast ekkert úr þrotabúinu uppí tapaðar innistæðurnar. 

Það eru bara B&H sem hagnsast á þessu ákvæði Neyðarlaganna en Íslendingar ekki. Bretar setja svo á okkur hryðjuverkalög í þakklætisskyni! Það varð okkur dýrkeypt.

Það er þrálátt fleipur, sem margur JÁ-sinninn heldur á lofti að bresku og hollensku tryggingasjóðirnir virki bara sem einskonar "top-up" tryggingasjóðir gagnvart Icesave. Landsbankinn fékk ekki starfsleyfi fyrir (net-)útibúi sínu Icesave í Bretlandi og Hollandi fyrr en hann hafði keypt dýrar tryggingar í þessum löndum. Annars vegar FSCS I Bretalndi og DNB í Holland. Þar með var Landsbankinn kominn með tvöfaldar innistæðutryggingar vegna Icesave. FSCS og DNB báru fulla ábyrgð á öllum tryggingum vegna Icesave, þar á meðal lágmarkstryggingu ESB og TIF.

FSCS og DNB greiddu innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans upp að trygginga-mörkum GBP 50.000 í Bretlandi og EUR 100.000 í Hollandi. Þetta bar þeim að gera samkvæmt tryggingaskilmálum þessara sjóða. Ríkissjóður Bretlands greiddi þær innistæður í Bretlandi sem voru umfram tryggingamark þar í landi. Í Hollandi átti enginn yfir trygging-markinu EUR 100.000 og greiddi ríkissjóður Hollands því ekki neitt. 

Hryðjuverkalög Breta ollu Íslendingum gífurlegum skaða. Bretar eru stórskuldugir við okkur ekki öfugt!  Auðvitað segjum við NEI við Icesave!


mbl.is Hvetja félagsmenn til að kjósa já
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Daníel Sigurðsson

Höfundur

Daníel Sigurðsson
Daníel Sigurðsson
Véltæknifræðingur

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband